Erlent

Lagaskylda að heimsækja aldraða

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Eldri borgarar í Kína.
Eldri borgarar í Kína. Mynd/AP
Frá og með deginum í dag taka gildi ný lög í Kína sem skylda fólk til að heimsækja eða hafa reglulega samband við aldraða foreldra sína. Við brotum liggja sektir eða jafnvel fangavist.

Í lögunum segir að fullorðin börn aldraðra eigi að láta sig varða andlegar þarfir foreldra sinna og "aldrei vanrækja eða lítilsvirða aldrað fólk."

Í Kína er sterk hefð fyrir því að sýna öldruðum virðingu. Í þrjá áratugi hefur markaðsvæðing hins vegar sett mark sitt á þjóðfélagið í vaxandi mæli, og hraðað upplausn fjölskyldunnar. Lítið er hins vegar enn um elliheimili eða önnur úrræði fyrir aldrað fólk, sem einangrast frá fjölskyldu sinni.

Nýju lögin hafa verið gagnrýnd fyrir það að erfitt geti reynst að framfylgja þeim. Stjórnvöld segja lögin hins vegar fyrst og fremst hafa verið sett til að brýna fyrir fólki að gleyma ekki öldruðum foreldrum sínum.

"Það er erfitt að framfylgja þessum lögum, en ekki ómögulegt," hefur breska útvarpið BBC eftir Zhang Yan Feng, lögfræðingi í Beijing. "Ef mál fer fyrir dóm á grunni þessara laga býst ég við að niðurstaðan fáist í sátt. En ef engar sættir takast, þá getur dómstóll tæknilega séð skyldað fólk til að heimsækja foreldrana nokkrum sinnum í mánuði. Ef þessum úrskurði er ekki hlítt, þá væri hægt að sekta eða fangelsa viðkomandi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×