Erlent

Snowden vill hæli í 21 landi

Boði Logason skrifar
Snowden ætlar ekki að láta kúga sig og ætlar að senda frá sér fleiri leyniskjöl á næstu dögum.
Snowden ætlar ekki að láta kúga sig og ætlar að senda frá sér fleiri leyniskjöl á næstu dögum.
Uppljóstararinn Edward Snowden segir að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, beiti leiðtoga þeirra þjóða þar sem hann hefur sótt um pólitískt hæli, þrýstingi.

Rafael Correra, forseti Ekvadors, sagði í gær að Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, hefði beðið sig um að hafna hælisumsókn Snowden.

Bandaríski uppljóstararinn sendi frá sér sína fyrstu yfirlýsingu í átta daga á vefsíðu WikiLeaks í gærkvöld, en hann dvelur nú á flugvellinum í Moskvu. Hann hefur verið ákærður fyrir njósnir í Bandaríkjunum eftir að hafa upplýst um stórfelldar hleranir Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna.

Jafnframt upplýsti Snowden að hann hefði sótt um pólitískt hæli í tuttugu og einu landi. Þar á meðal Austurríki, Bólivíu, Brasilíu, Kína, Kúbu, Finnlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Indlandi, Ítalíu, Írlandi, Hollandi, Níkaragúa, Noregi, Póllandi, Spáni, Sviss og Venezúela. Hann hafði áður sótt um hæli í Ekvador, Rússlandi og Íslandi.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sagði í gær að hugsanlega væri hægt að taka hælisumsókn hans til skoðunar ef hann hætti að leka leyniskjölum til fjölmiðla. Snowden sagði hinsvegar í yfirlýsingunni að það væri af og frá - hann myndi ekki láta kúga sig og ætlaði að senda frá sér fleiri skjöl á næstu dögum.

Uppfært: 08:38

Nú í morgun bárust þær fregnir að Snowden hefði dregið hælisumsókn sína í Rússlandi til baka - vegna fyrrnefndar kröfu Pútín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×