Erlent

Fara gegn ráðleggingum og banna Khat

Jóhannes Stefánsson skrifar
Khat veldur vægum örvunaráhrifum, líkt og koffein gerir.
Khat veldur vægum örvunaráhrifum, líkt og koffein gerir.
Bresk yfirvöld hyggjast banna örvandi efnið Khat, þrátt fyrir að nefnd um þarlend fíkniefnamál leggist gegn banninu.

Fíkniefnanefndin (Advisory Council on the Misuse of Drugs) gaf í janúar út skýrslu þar sem „ónæg sönnunargögn" lægju fyrir um að efnið væri skaðlegt heilsu.

Þrátt fyrir þetta sagði innanríkisráðherra Breta, Theresa May, að hættueiginleikar efnisins hefðu líkast til verið vanmetnir og því væri rétt að banna það.

Efnið verður því skilgreint sem fíkniefni í flokki C, en fíkniefni eru flokkuð í flokka eftir ætlaðri skaðsemi þeirra í Bretlandi. Efnið verður í flokk með anabolískum sterum og ketamíni.

Khat hefur þegar verið bannað víða í Evrópu og í Bandaríkjunum og Kanada.

Bannið er hinsvegar ekki einungis til komið vegna meintra hættueiginleika efnisins heldur einnig vegna þess að þarlend stjórnvöld óttast að verði ekkert að gert muni það vera flutt í gegnum landið í miklum mæli til Evrópu.

„Veldur miklum samfélagsvanda"

Efnið er gjarnan notað í Eþíópíu, Sómalíu og Jemen, þar sem það er ræktað.

Í skýrslu fíkniefnanefndarinnar kemur fram að efnið veldur „vægum örvunaráhrifum sem eru miklu minni en gildir um önnur örvandi lyf á borð við amfetamín." Þá segir í skýrslunni að „engin gögn" bentu til þess að efnið væru tengd alvarlegri eða skipulagðri glæpastarfsemi.

Hið opinbera hefur sagt að skýrsla nefndarinnar geri lítið úr hættu efnisins einmitt vegna þess að sönnunargögn skorti sem sýni fram á hættu þess fyrir samfélög.

Sómalskir hópar á bretlandi hafa sagt efnið „valda miklum samfélagsvanda" þar sem það ylli heilsufarsvandamálum og fjölskylduörðugleikum.

Fíkniefnanefndin sagði að fráhvarfseinkenni af efninu væru slappleiki og þunglyndi og mældu með því að heilbrigðisyfirvöld myndu upplýsa fólk um það.

Innanríkisráðuneyti Bretlands segir banninu ætlað að „vernda viðkvæma einstaklinga samfélaga" og yrði komið á koppinn „við fyrsta tækifæri."

Þetta kemur fram á vef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×