Erlent

Kerry segist bjartsýnn

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mynd/AP
Stutt gæti verið í að friðarviðræður hefjist á ný milli Ísraela og Palestínumanna. Þessu trúir John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem hefur átt fundi með leiðtogum beggja þjóðanna síðustu daga.

„Ég þekki framfarir þegar ég sé þær, og við höfum náð árangri,“ sagði Kerry í gær við blaðamenn á flugvellinum í Tel Aviv, þegar hann hélt af stað til Brunei á fund með Asíuríkjum.

„Það bar mikið á milli þegar við hófumst handa, en nú hefur bilið minnkað verulega.“

Hann hefur hitt bæði Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmúd Abbas Palestínuforsta, nokkrum sinnum, en þó ekki rætt við þá báða í einu.

"Ég trúi því að með svolítið meiri vinnu geti upphaf viðræðna um lokastöðuna verið innan seilingar," sagði Kerry á blaðamannafundinum.

Til marks um það segist hann meðal annars hafa það að bæði Netanjahú og Abbas hafi óskað eftir því að hann kæmi fljótlega til fundar við þá aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×