Matthías Vilhjálmsson tryggði Start stig á heimavelli gegn Aalesund í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Matthías skoraði síðasta markið í 2-2 jafntefli.
Aalesund var 2-0 yfir í hálfleik með mörkum Fredrik Ulvestad og Peter Orry Larsen á 34. og 38. mínútu.
Ernest Asante minnkaði muninn strax á fjórðu mínútu seinni hálfleiks og Matthías jafnaði metin á 61. mínútu og þar við sat.
Matthíasi var skipt útaf á 82. mínútu en Guðmundur Kristjánsson var einnig í byrjunarliði Start og var skipt af velli í uppbótartíma.
Start féll niður í 15. sæti deildarinnar því Odd sigraði Haugesund á sama tíma 4-0 á heimavelli.
Aalesund fór upp fyrir Brann í þriðja sæti deildarinnar með stiginu á betri markamun.
