Erlent

Hyggjast stunda líffærabúskap

Jóhannes Stefánsson skrifar
Japanskir vísindamenn hyggjast rækta mennsk líffæri í líkömum svína.
Japanskir vísindamenn hyggjast rækta mennsk líffæri í líkömum svína.
Japanskir vísindamenn hafa fengið meðmæli frá nefnd á vegum hins opinbera um að heimila rannsóknir á ræktun mannalíffæra í dýrum.

Nefndin er skipuð af vísindamönnum og lögfræðingum sem hafa gefið út reglur þar að lútandi, en ræktunin er liður í stofnfrumurannsóknum Japana.

Japanir eru nokkuð frjálslyndir þegar kemur að stofnfrumurannsóknum því svipaðar hugmyndir hafa ekki hlotið brautargengi í öðrum löndum. Hugmyndin er sú að koma fyrir mennskum stofnfrumum inn í fósturvísi dýrsins, en svín verða að öllum líkindum fyrir valinu. Við það verður til einhverskonar blendings-fósturvísir sem svo verður komið fyrir í kviðarholi dýrsins.

Fósturvísirinn mun að því búnu vaxa með dýrinu og að endingu verða að heilbrigðu, mennsku líffæri á borð við nýra eða hjarta.

Þegar dýrinu er svo slátrað er hægt að ná í líffærið sem fer svo í mennskan líffæraþega sem þarfnast líffærisins.

„Þessi meðbyr er mikilvægt skref fram á við og það hefur tekið okkur þrjú ár að fá þessu framgengt," sagði prófessor Hiromitsu Nakauchi við Háskólann í Tókýó í samtali við Daily Telegraph.

Teymi Nakauchi hefur þegar tekist að koma fyrir stofnfrumum rotta í fósturvísa músa sem hefur verið erfðabreytt.

Eins og sakir standa er japönsku vísindamönnunum heimilt að búa til blendings-fósturvísa á rannsóknarstofum þar sem þeir mega verða allt að 14 daga gamlir. Næsta skrefið í ferlinu, að koma fósturvísunum fyrir í kviðarholi dýrs, er ennþá bannað.

Nakauchi vonast til þess að því verði breytt á næstunni og að fyrstu líffærin verði tilbúin til notkunar innan fimm ára, enda telja menn að tæknin sé langt á veg komin. Fyrsta líffærið sem verður prófað að rækta verður líklegast bris.

Frá þessu er sagt á vef Telegraph.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×