Erlent

Bölvun faraóanna

Heimir Már Pétursson skrifar
Dularfullir atburðir eiga sér stað í Manchester en stytta af Neb-Senu hefur tekið upp á því að snúa sér.
Dularfullir atburðir eiga sér stað í Manchester en stytta af Neb-Senu hefur tekið upp á því að snúa sér.
Stytta af fornegyptanum Neb-Senu hefur tekið upp á því að snúa sér í sýningarkassa á safni í Manchester í Bretlandi, en ef fram fer sem horfir hafa safnverðir áhyggjur af því hvar styttan muni enda.

Styttan er talin vera frá því 1.800 fyrir Krist. Campbell Price safnvörður greindi breska blaðinu Manchester Evening News frá því að einn daginn þegar hann kom í vinnuna hefði styttan snúið sér 180 gráður í sýningarkassanum. Þetta finnst Price furðulegt því hann sé eini maðurinn með lykla af sýningarskápnum. Hann segist hafa snúið styttunni á nýjan leik. Sett var upp myndavél til að fylgjast með styttunni sem tók mynd í hvert sinn sem hún hreyfði sig og þótt erfitt sé að greina hreyfingar hennar með því að horfa á hana berum augum, kemur berlega í ljós við skoðun mynda sem teknar eru yfir langan tíma, að styttan snýst hægt og rólega rangsælis.

Styttan virðist aðeins hreyfa sig á daginn en vera kjur á nóttinni. Þessi staðreynd leiddi til þeirrar ályktunar bresks vísindamans að víbringur frá gestum safnsins leiddi til þess að styttan snérist. Þetta finnst Price hins vegar ekki sannfærandi skýring. Styttan, sem er um 25 sentimetra há, hafi verið í safninu frá árinu 1933 og hafi aldrei áður tekið upp á því að snúa sér í sýningarkassanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×