Erlent

Engin afskipti haft af Snowden

Boði Logason skrifar
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Mynd/Afp
Utanríkisráðherra Rússlands segir að uppljóstrarinn Edward Snowden hafi aldrei komið inn fyrir rússnesk landamæri. Ásakanir Bandaríkjamanna í garð Rússa vegna hvarfs uppljóstarans séu tilefnislausar og óásættanlegar. Boði Logason.

Ekkert hefur spurst til Snowdens síðustu daga, eftir að yfirvöld í Hong Kong sögðu hann hafa farið með áætlunarflugi til Moskvu um helgina. Því hefur varið haldið fram að hann sé í felum í Moskvu og í gær bárust þær upplýsingar að hann væri á leið til Kúbu. Hann lét hinsvegar ekki sjá sig um borð og því algjörlega óvíst hvar hann heldur sig.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði svo á blaðamannafundi í morgun að rússnesk yfirvöld hefðu ekki haft nein afskipti af ferðum bandaríska uppljóstrarans.

Sagði hann að tilraunir Bandaríkjamanna að ásaka Rússa um að brjóta bandarísk lög og að hótanir sem því hafa fylgt séu með öllu óafsakanlegar. Edward Snowden hafi aldrei komið inn fyrir rússnesk landamæri síðustu daga.

Fréttaskýrendur túlka þau orð á þann veg að Snowden hafi vissulega lent í Moskvu um helgina, en hafi aldrei farið út af flugvellinum. Svo tæknilega séð hafi hann aldrei komið inn fyrir landamæri Rússlands. Hann sé því enn á flugvellinum í Moskvu.

Fréttavefur breska ríkisútvarpsins segir að Snowden ferðist með Söruh Harrison, starfsmanni WikiLeaks.

Í norska miðlnum The Nordic Page í gær var haft eftir forsvarsmönnum Norska Pírataflokksins að Snowden hefði komið til Noregs á sunnudagskvöld og hafi í kjölfarið flogið til Íslands, þar sem hann dvelji nú.

Formaður flokksins sagði í morgun að það væri rangt, um misskilning hafi verið að ræða. Flokkurinn hafi einungis fengið upplýsingar um að Snowden ætti bókaðan flugmiða frá Gardemoen til Keflavíkur. Óljóst væri hvort að hann hafi nýtt sér hann. Forsvarsmenn flokksins viti ekki hvar Snowden sé niðurkominn, rétt eins og aðrir í heiminum.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, fullyrti í samtali við fréttastofu í morgun að Snowden væri ekki á Íslandi, enda hefði verið tekið eftir því ef hann hefði komið til Íslands, auk þess sé ekki mikil eftirspurn hjá innanríkisráðuneytinu að fá hann hingað til lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×