Erlent

Vladimir Pútín: "Snowden er frjáls maður"

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Edward Snowden
Edward Snowden
Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden er enn á flugvellinum í Moskvu. Þetta fullyrðir Vladimír Pútín Rússlandsforseti, sem staddur er í Finnlandi, við blaðamenn þar.

Pútín segir að Snowden sé frjálst að fara hvert sem hann vill og hafnar öllum kröfum um framsal til Bandaríkjanna.

Hann tók jafnframt fram að rússneskir leyniþjónustumenn hafi engin afskipti haft af Snowden.

„Snowden er frjáls maður,“ sagði Pútín við blaðamenn, og bætti við að því fyrr sem hann ákveði sinn næsta viðkomustað, því betra væri það fyrir hann sjálfan og Rússa.

Fyrr í dag sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, að ekki stæði til að framselja Snowden og hafnaði ásökunum bandarískra stjórnvalda um að Rússar séu að vinna gegn Bandaríkjunum.

"Við teljum allar tilraunir til að saka Rússa um að brjóta bandarísk lög og jafnvel ástunda einhvers konar samsæri, sem hótanir eru þar á ofan látnar fylgja, vera algerlega tilhæfulausar og ólíðandi," sagði Lavrov.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur hvatt Rússa til að framselja Snowden. Kerry sagði jafnframt að samskipti Bandaríkjanna við Rússland og Kína muni versna ef í ljós komi að þessi ríki hafi aðstoðað Snowden.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×