Erlent

Varar við getgátum um heilsu Mandela

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Zuma segir að allar tilkynningar um heilsufar Mandela muni koma frá forsetanum sjálfum eða talsmanni hans.
Zuma segir að allar tilkynningar um heilsufar Mandela muni koma frá forsetanum sjálfum eða talsmanni hans. samsett mynd/afp
Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku, varar við getgátum um heilsu Mandela, en að minnsta kosti einn fjölmiðill hefur þegar greint frá andláti hans. Þetta gagnrýnir Zuma harðlega, og segir að allar tilkynningar um heilsufar Mandela muni koma frá forsetanum sjálfum eða talsmanni hans.

Mandela er 94 ára og var lagður inn á spítala í Pretoríu fyrir þremur vikum vegna þrálátrar sýkingar í lungum. Heilsa hans hefur versnað mikið undanfarna daga og er honum nú haldið á lífi með öndunarvél, en ástand hans er sagt stöðugt.

Nelson Mandela var harður andstæðingur kynþáttaaðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku og sat í fangelsi á Robben-eyju í 27 ár vegna mótmæla sinna. Honum var sleppt árið 1990 og var veitt friðarverðlaun Nóbels þremur árum síðar. Hann var fyrsti þeldökki maðurinn sem kjörinn var forseti landsins, en hann gegndi því embætti á árunum 1994 til 1999.

Uppfært kl. 12:48

Jacob Zuma hefur tjáð fjölmiðlum að Mandela sé mun hraustari en í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×