Erlent

Dæmdur fyrir að "frelsa" hamsturinn

Jóhannes Stefánsson skrifar
Tilfinningatengsl Hanson og Harry eru sterk.
Tilfinningatengsl Hanson og Harry eru sterk. Getty
Hinn þrítugi Andrew Walsh braust inn á heimili fyrrverandi kærustu sinnar og hleypti hamstrinum Harry úr búri sínu. Ástæða frelsunarinnar mun hafa verið sú að Julie Hanson, fyrrum kærasta Walsh tilkynnti honum að hún elskaði Harry meira en hann.

Þetta kom fram í dómsal í Blackpool, en Walsh var ákærður fyrir innbrotið þar sem hann stal sjónvarpi til viðbótar við frelsunina. Hann braut niður útidyrahurðina á íbúð Hanson á meðan hún var í bingó með móður sinni.

Harry fannst undir teppi í íbúðinni og varð ekki meint af frelsuninni.

Saksóknarinn í málinu, Tracy Yates, segir Walsh „ítrekað hafa beðið Hanson um að taka saman við hann á ný." Það hafi hún hinsvegar ekki viljað gera. „Daginn eftir innbrotið sá hún að búið var að brjóta niður hurðina og hún tók eftir því að hamstrabúrið var opið. Hamsturinn var týndur og Walsh vissi fullvel að hún elskaði hamsturinn og tilfinningatengslin við hann voru sterk, sem honum líkaði ekki."

Yates bætti svo við: „Hún var í miklu uppnámi. Þegar Walsh var handtekinn sagði hann lögreglunni frá því að hann hefði opnað hamstrabúrið og veitt Harry frelsi."

Walsh var gert að vinna 150 klukkustundir án kaups, borga 85 pund í kostnað og 60 pund í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×