Erlent

Mjólkandi mæður upp á kant við Instagram

Jóhannes Stefánsson skrifar
Brjóstagjöf á almannafæri fer fyrir brjóstið á sumum.
Brjóstagjöf á almannafæri fer fyrir brjóstið á sumum.
Deilur mæðra með börn á brjósti og Instagram hafa komið upp eftir að Instagram lokaði aðgangi „Lekandi brjóstsins" (e. The Leaky Boob), sem birtir gjarnan myndir af konum að gefa börnum sínum brjóst.

Stofnandi Lekandi brjóstsins, Jessica Martin-Weber, hefur farið þess á leit að Instagram skýri stefnu sína hvað varðar myndir af brjóstagjöfum í kjölfar þess að aðgangi Leka brjóstsins var lokað.

Instagram gaf þau svör að aðgangnum hefði verið lokað fyrir mistök og baðst afsökunar á óhagræðinu.

Talsmaður Instagram sagði í viðtali við Huffington Post að „stefna okkar leyfi myndir af brjóstagjöf. Hins vegar komi það stundum fyrir að mistök verði þegar við förum yfir kvartanir frá notendum. Í þessu tilfelli lokuðum við aðgangnum en leiðréttum mistökin um leið og við vorum látin vita." Aðgangurinn hefur verið opnaður á ný.

Martin-Weber hefur þó enn áhyggjur af því að Instagram muni loka síðunni að nýju og hefur farið fram á að samskiptamiðlarnir skýri stefnu sína hvað varðar myndir af brjóstagjöf.

„Það er mikilvægt að mæður sjái brjóstagjöf. Aðrir þurfa líka að sjá brjóstagjöf svo að ofuráherslu á kynferði kvenlíkamans linni. Við þurfum að hvetja mæður til að standa við það þegar þær segjast ætla að gefa börnum brjóst úti í samfélaginu og samfélagið þarf að gangast við þeim að fullu og hætta að refsa þeim þannig að þær þurfi að fela brjóstagjöfina," er haft eftir Martin-Weber.

Instagram hefur sett notendum sínum ráðleggingar þar sem þeir eru hvattir til að sýna umburðarlyndi gagnvart viðkvæmu efni.

Nánar er fjallað um málið á Huffington Post.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×