Erlent

Ráða bara flugfreyjur til að spara eldsneyti

Jóhannes Stefánsson skrifar
Richard Branson fengi líkast til ekki starf hjá GoAir ef hann myndi sækja um sem flugþjónn.
Richard Branson fengi líkast til ekki starf hjá GoAir ef hann myndi sækja um sem flugþjónn. AFP
Indverska flugfélagið GoAir hefur brugðið á það ráð að ráða bara kvenmenn til að þjóna um borð í flugvélum félagsins í ljósi þess að flugþjónar eru almennt þyngri en konurnar. Ástæðan er sú að þyngri áhöfn leiðir til þess að vélarnar eyða meira af eldsneyti, en vegna gengisfalls rúpíunnar hefur verð á eldsneyti hækkað mjög mikið.

Um 40% þeirra 300 sem starfa í flugáhöfnum félagsins eru karlmenn eins og sakir standa. Þeir eru að meðaltali 15 - 20 kílóum þyngri en konurnar en hvert kíló kostar um þrjár rúpíur á hverja klukkustund sem flogið er. Félagið áætlar að með því að skipta körlunum út fyrir konur sparist jafnvirði um 60 milljónir króna árlega.

Félagið mun ekki segja upp þeim körlum sem starfa þegar fyrir félagið en hefur brugðið á það ráð að hafna öllum körlum sem sækja um sem flugþjónar og ráða einungis flugfreyjur.

„Fall rúpíunnar hefur komið mjög illa við flugfélögin. Allir kostnaðarliðir á borð við leigu flugvéla, varahlutir og eldsneytiskostnaður eru tengdir dollaranum. Við erum að leita allra leiða til að draga úr útgjöldum svo að starfsemi sé arðbær," segir Giorgio De Roni, framkvæmdastjóri GoAir í samtali við The Times of India.

„Við erum að draga úr þyngd um borð flugvélanna. Stærð tímaritanna hefur verið minnkuð. Vatnstankarnir eru nú bara fylltir að hluta," segir De Roni.

Þetta kemur fram á vef The Times of India.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×