Erlent

Grét þegar hann sá bekkjarmynd sonar síns

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Miles var settur til hliðar við bekkjarfélaga sína á ljósmyndinni.
Miles var settur til hliðar við bekkjarfélaga sína á ljósmyndinni.
„Hjarta mitt brast,“ segir Don Ambridge um bekkjarmynd sjö ára sonar síns sem tekin var í kanadísku borginni New Westminster.

Miles sonur hans er með SMA sjúkdóminn svokallaða og í hjólastól vegna hans. Á bekkjarmyndinni stilla bekkjarfélagar sér upp í þrjár raðir við hlið kennara síns, en Miles er til hliðar við hópinn.

„Hann hallar sér til hliðar, hann langar svo að vera með,“ segir faðirinn, sem segir myndina niðurlægjandi fyrir son sinn. Hann segist hafa grátið þegar Miles kom heim með ljósmyndina. „Mér verður illt af því að horfa á hana.“

Hann vill þó ekki ganga svo langt að segja syni sínum hafa verið mismunað.

„Fyrir mér er mismunun þegar einhver er viljandi hafður útundan. Ég tel ekki að um slíkt sé að ræða, heldur hugsunarleysi sem hafði hryllilegar afleiðingar.“

Ný ljósmynd hefur verið tekin af hópnum, og á nýju myndinni situr Miles með bekkjarfélögum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×