Erlent

Fundu líkamsleifar í garði Goodfellas-mafíósa

Bandaríska alríkislögreglan í samstarfi við lögregluna í New York fundu í vikunni líkamsleifar heima hjá mafíósanum Jimmy „the gent“ Burke, sem lést árið 1996 í fangelsi.

Sá varð heimsfrægur eftir að stórleikarinn Robert De Niro túlkaði hann í kvikmyndinni Goodfellas sem er byggð á sannsögulegum atburðum.

New York Post greinir frá því að lögreglan hafi fundið líkamsleifar í garðinum og grunur leikur á að leifarnar tengist uppgjöri vegna rúmlega 30 ára gamals ráns á Kennedy flugvellinum.

Ránið er í daglegu tali kallað Lufthansa-ránið, en Jimmy er grunaður um að hafa skipulagt það, þó engin játning liggi fyrir hvað það varðar.

Ræningjarnir höfðu 6 milljónir dollara upp úr krafsinu. Til gamans má geta að sex milljónir dollara eru 740 milljónir króna á núvirði.

Hús Jimmys er í eigu dætra mafíósans en þær leigja það út. Rannsókn lögreglunnar beinist einnig að kjallara hússins.

Kvikmyndin Goodfellas er byggð á ævisögu glæpamannsins Henry Hill sem leikstjórinn Martin Scorsese gerði ódauðlega árið 1990.

Henry gaf sig fram við alríkislögregluna árið 1980 og vitnaði gegn Lucchese-mafíunni og kom þannig félögum sínum á bak við lás og slá - þar á meðal Jimmy. Hann hóf svo nýtt líf í vitnavernd á vegum bandaríska ríkisins.

Réttarmeinafræðingar eiga eftir að skoða líkamsleifarnar úr garði mafíósans og er lögreglan þögul sem gröfin varðandi smáatriði rannsóknarinnar.

Hér fyrir ofan má sjá sýnishorn úr kvikmyndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×