Erlent

Heimsins dýrasti fjárhundur

Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar
Bell og Bob. Bóndinn fyrrverandi þykir frábær hundaþjálfari og Bob afbragðs hundur.
Bell og Bob. Bóndinn fyrrverandi þykir frábær hundaþjálfari og Bob afbragðs hundur.

Heimsins dýrasti fjárhundur var sleginn á uppboði í síðustu viku og fór hann á rétt tæpar tvær milljónir króna. Hundurinn kostaði fyrrum eiganda aðeins 60 þúsund krónur.

Ekki er vitað hver keypti en sá gaf rétt tæpar 1,9 milljón krónur fyrir. Þetta gerir Border Collie-hundinn Bob, sem er 15 mánaða, þann dýrasta sem vitað er um. Fyrrverandi eigandi hundsins er þekktur hundaþjálfari, John Bell sem keypti hann á aðeins 60 þúsund krónur.  Bell er fyrrverandi bóndi í Yorkshire og hundar frá honum hafa á aundanförnum þremur árum farið fyrir metfé. Bell keypti Bob þegar hann var aðeins 13 vikna hvolpur.

Border Collie er talin greindasta hundategundin og eru vinnuhundar, einkum fjárhundar. Bell segir að Bob hafi starfað sem smali alveg frá því að hann var níu mánaða, sannkallaður náttúrutalent að sögn þjálfarans sem væntir mikils af honum. „Skapgerðin er frábær,“  segir Bell sem hefur auga fyrir hæfileikum hunda; sér þá strax í hvolpum. Sumir eru fljótari að læra en aðrir en markmiðið er að þeir verði frammúrskarandi.

Bell settist í helgan stein fyrir 15 árum og hóf þá að þjálfa hunda, fyrst sem áhugamál en nú hefur þetta þróast í mikla ástríðu. Hundana selur bændum og búaliði í nágrenninu, sem og á uppboðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×