Erlent

Kim Jong-un í Koppafeiti - Tók þátt í uppsetningu á Grease

Kim Jong-un í Sviss árið 1995.
Kim Jong-un í Sviss árið 1995.
Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-un, tók þátt í uppsetningu á bandaríska söngleiknum Grease, eða Koppafeiti, á skólaárum sínum í Sviss.

Kim hefur farið mikinn á undanförnum vikum og hótað kjarnorkustríði.

Það sem margir vita ekki er að Kim fékk vestrænt uppeldi og bjó í Sviss á árunum nítján hundruð níutíu og fjögur til níutíu og sjö.

Breski slúðurmiðillinn The Sun greinir frá því að einræðisherrann hafi stigið á svið í svörtum leðurjakka, með brilljantín í hárinu og sungið með þekktum lögum á borð við Grease Lightning.

Ljóst er að Kim var heillaður af vestrænni menningu og segja fyrrum skólasystkini hans að leiðtoginn hafi yfirleitt verið með nefið ofan í myndasögum og horft á bandarískar kvikmyndir. Þar var myndin Jurassic Park í miklu uppáhaldi.

Kim var þó ekki einn á báti í Sviss. The Sun staðhæfir að þrekvaxinn lífvörður hafi ávallt verið honum við hlið en hann var jafnframt í gervi fjórtán ára skólapilts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×