Erlent

Tárvotur Bandaríkjaforseti barðist fyrir hertari vopnalöggjöf

MYND/AP
Tárvotur Bandaríkjaforseti hvatti í nótt löggjafa til að samþykkja hertari vopnalöggjöf.

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, fór mikinn í ræðu sinni í Connecticut, skammt frá bænum Newtown þar sem hátt í þrjátíu manns fórust í skotárás í desember síðastliðnum, þar af tuttugu börn. Miðlar vestanhafs greina frá því að forsetinn hafi fellt tár þegar hann ávarpaði aðstandendur í salnum.

Síðan þá hefur Obama barist fyrir hertari vopnalöggjöf í Bandaríkjunum. Nýlegar skoðanakannanir sýna að yfirgnæfandi meirihluti Bandaríkjamanna er hlynntur tillögum forsetans. Hann hefur engu að síður átt í erfitt uppdráttar með að koma málinu í gegnum þingið.

Tillaga Obama er í þremur liðum. Fyrst tekur hún til almenns banns á sjálfvirkum hríðskotarifflum. Þá er einnig lagt til að stærð skothylkja verði minnkuð niður í tíu byssukúlur. Að lokum boðar Bandaríkjaforseti efldar ferilskoðanir þegar skotvopn eru keypt.

En þó svo að vilji almennings sé skýr eru talsmenn Skotvopnasamtaka Bandaríkjanna á öðru máli og hafa þeir háð ötula baráttu gegn löggjöfinni.

Obama hélt síðan til Washington ásamt nokkrum aðstandendum fórnarlamba skotárásarinnar í Newtown. Þau hafa samþykkt að hjálpa forsetanum að þrýsta á þingmenn að samþykkja vopnalöggjöfina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×