Fótbolti

Varð að hætta eftir að ég kom úr skápnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Robbie Rogers segir að það hefði verið ómögulegt að halda áfram atvinnumannaferli sínum í knattspyrnu eftir að hann gerði samkynhneigð sína opinbera.

Rogers er bandarískur leikmaður sem spilaði síðast með Leeds og býr nú í London. Hann er 25 ára gamall og ákvað að leggja á skóna á hilluna þegar hann kom úr skápnum í síðasta mánuði.

„Það er ómögulegt fyrir knattspyrnumenn að koma úr skápnum af augljósum ástæðum," sagði Rogers í löngu viðtali sem birtist í The Guardian í dag.

„Ímyndaðu þér að fara á æfingu á hverjum degi í þessu sviðsljósi. Þetta hefur verið hálfgerður sirkus að undanförnu en það hefði verið brjálæði," sagði hann.

Rogers spilaði með Columbus Crew í heimalandinu, sem og Heerenveen í Hollandi og Stevenage í Englandi. Hann komst einnig í bandaríska landsliðið á sínum tíma.

Hann segir óvíst hvort hann hefði getað tekið það að sér að gerast fyrirmynd fyrir aðra með því að halda áfram að spila.

„Ég væri kannski nógu sterkur til að takast á við það en ég er ekki viss um að það sé það sem ég vilji endilega vera. Ég vil bara fá að vera knattspyrnumaður."

„Ég myndi ekki vilja taka þátt í þessum sirkusi. Væri fólk að koma og horfa á mig spila vegna þess að ég er hommi?"

Justin Fashanu kom fyrstur knattspyrnumanna úr skápnum en það gerði hann árið 1990. Hann svipti sig lífi átta árum síðar, þá 37 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×