Erlent

Jörðin gleypti kylfing

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mark Mihal, 43 ára kylfingur, er á batavegi eftir að hafa fallið ofan í tæplega sex metra djúpa holu þegar jörðin féll undan fótum hans á golfvelli í Missouri fylki í Bandaríkjunum á föstudaginn.

Mihal fór úr axlarlið við fallið en tæpar tuttugu mínútur tók að bjarga Mihal úr holunni. Félagi Mihal klifraði niður í holuna og batt reipi um vin sinn sem var hífður upp úr holunni.

„Ég stóð á miðri brautinni," segir Mihal í samtali við vefmiðilinn St. Louis Post Dispatch. Atvikið átti sér stað á 14. holu Annbriar golfvallarins nærri bænum Waterloo í Missouri-fylki. „Svo, upp úr þurru, áður en ég vissi af, var ég neðanjarðar," segir Mihal.

Golfvöllurinn var í miklu uppáhaldi hjá Mihal. Hann segist þó ekki vera viss um að hann ætli að spila þar aftur. Það væri skrýtin tilfinning að spila þessa holu aftur.

Aðeins rúmar tvær vikur eru síðan 36 ára karlmaður féll ofan í holu sem myndaðist undir húsi hans í Flórída-fylki. Lík mannsins hefur ekki fundist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×