Erlent

Kynlíf virkar jafnvel og verkjatöflur gegn höfuðverkjum

Ný rannsókn leiðir í ljós að kynlíf getur virkað jafnvel og verkjalyf gegn höfuðverkjum.

Það voru taugasérfræðingar við háskólann í Munster í Þýskalandi sem unnu að rannsókninni en breska blaðið Telegraph greinir frá niðurstöðum hennar.

Í ljós kom að í helmingi tilvika minnkaði höfuðverkurinn hjá mígrenisjúklingum ef þeir stunduðu kynlíf meðan verkjaköstin stóðu yfir. Í 20% tilvika hvarf verkurinn alveg.

Taugasérfræðingarnir segja að sennilegasta ástæðan fyrir þessu sé að heilinn virkjar framleiðslu á endorphíni, hinu náttúrulega verkjalyfi líkamans, meðan á kynlífi stendur. Það hefur svo aftur þau áhrif að höfuðverkurinn minnkar eða hverfur.

Rannsókn þessi náði til um 800 mígrenisjúklinga og um 200 einstaklinga sem glíma við þrálát höfuðverkjaköst. Í ljós kom að í nokkrum tilvikum voru viðkomandi sjúklingar meðvitaðir um virkni kynlífs gegn sjúkdómi sínum og stunduðu það þegar höfuðverkurinn skall á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×