Erlent

Hugsanlegt að lífið hafi komið til jarðar með halastjörnu

Vísindamenn telja að lífið á jörðinni hafi vel hugsanlega komið utan úr geimnum í upphafi og þá annaðhvort með halastjörnu eða loftsteini.

Það eru vísindamenn við Berkeley háskólann í Kaliforníu í samvinnu við háskólann á Hawaii sem sýnt hafa fram á þetta. Með tilraunum hafa þeir sannað að svokallaðar bundnar amínósýrur geta myndast út í geimnum.

Þessar sýrur eru hornsteinn alls lífs á jörðinni því þær mynda grundvöllinn að próteinum, ensímum og mólekúlum hjá lifandi verum. Efnafræðingurinn Richard Mathies við Berkeley háskólann segir það heillandi hugsun að hornsteinar lífsins á jörðinni hafi komið utan úr geimnum í upphafi.

Eins og kunnugt er má finna ís í halastjörnum. Það sem vísindamennirnir gerðu var að búa til nokkurskonar snjóbolta og setja hann í lofttæmt rými þar sem kuldinn var 250 gráður eða svipað og djúpt í geimnum. Með því að skjóta geimgeislum á boltann kom í ljós að fyrrgreindar amínósýrur mynduðust í honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×