Erlent

Burger King sagt selt McDonald's

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Forsvarsmenn Burger King neyddust til þess að láta loka Twitter-aðgangi sínum tímabundið í gær þar sem óprúttnir aðilar hökkuðu sig inn á hann.

Sumar færslurnar sem sendar voru út eftir að aðilarnir komust inn á Twitter-aðganginn snerust að samkeppnisaðila Burger King, McDonald's. Þannig var lógóinu breytt auk þess sem ein færslan flutti þau tíðindi að McDonald's hefði fest kaup á Burger King. Aðrar færslur virtust hafa það að markmiði að sverta fyrirtækið og starfsmenn þess.

Allajafna uppfærir fyrirtækið Twitter-síðu sína einu sinni til tvisvar á dag. Hins vegar birtust 55 færslur á þeirri rúmlega klukkustund sem fyrirtækið missti tök á síðu sinni.

Sumar af færslunum á Twitter-síðu Burger King í gær.Skjáskot
Heimasíður fjölmargra fyrirtækja hafa verið hakkaðar undanfarnar vikur og mánuði. Fjölmiðlarnir New York Times, Wall Street Journal og Washington Post hafa allir tilkynnt að brotist hafi verið inn á heimsíður þeirra.

Twitter upplýsti þann fyrsta þessa mánaðar að mögulegt væri að tölvuglæpamenn hefðu stolið notendanöfnum og lykilorðum hjá yfir 250 þúsund notendum samskiptamiðilsins.

Hamborgarakeðjan hefur aftur náð tökum á Twitter-aðgangi sínum sem hefur verið opnaður að nýju. Rúmlega 111 þúsund manns fylgjast með færslum keðjunnar.

Reuters-fréttastofan er meðal þeirra sem fjallað hafa um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×