Erlent

Tilræðið sagt sviðsett

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/AFP
Talið var að ótrúleg heppni hefði orðið til þess að ekki hljóp skot úr byssu manns sem komst upp að hlið stjórnmálamanns á stjórnmálafundi í Búlgaríu á laugardaginn. Nú er annað hljóð komið í strokkinn.

Nú reyna Búlgarar að komast til botns í árásinni þar sem ekki liggur ljóst fyrir hvaða ástæðu tilræðismaðurinn hafði til þess að bana stjórnmálamanninum. Guardian fjallar um málið á vefsíðu sinni.

Hinn 25 ára gamli Oktai Enimehmedov var færður í vörslu lögreglu eftir að hafa miðað byssu á höfuð Ahmed Dogan, flokksformanns Frelsisflokksins í Búlgaríu. Flokkurinn er í stjórnarandstöðu í Búlgaríu og sækir stuðning sinn aðallega til múslima og Tyrkja í landinu.

Dogan grípur um byssu Enimehmedov.Nordicphotos/AFP
Lögreglan hefur greint frá því að byssan hafi verið gasbyssa sem var hlaðin piparúða. Ekki hafi því verið mögulegt fyrir Enimehmedov að bana Dogan. Tvær tilgátur virðast vinsælastar í Búlgaríu um hver tilgangur Enimehmedov með uppákomunni hafi verið.

Hinn 25 ára gamli Tyrki og nemi í arkitektúr, sem hefur komið við sögu lögreglu sökum þjófnaðar og eiturlyfja, skildi eftir miða til mömmu sinnar á heimili sínu áður en hann hélt á stjórnmálafundinn. Þar skrifaði hann að tilgangur sinn væri ekki að ráða Dogan af dögum. Hann vildi aðeins sýna fram á að hann væri ekki ósnertanlegur.

Lífverðir Dogan gengu vasklega til verks svo ekki sé meira sagt.Nordicphotos/AFP
Hin tilgátan er sú að Frelsisflokkurinn hafi sjálfur sviðsett uppákomuna. Þennan sama daga lét Dogan af embætti sem flokksformaður og telja margir að það hafi styrkt stöðu hans að ljúka leik sem fórnarlamb. Þó telja margir að Dogan hafi alls ekki sagt skilið við stjórnmálinn og muni stjórna flokki sínum áfram úr fjarlægð.

Enimehmedov á yfir höfði sér allt að sex ára fangelsisvist verði hann fundinn sekur um tilraun til morðs. Búlgarar hafa haft nóg að velta sér upp úr um helgina. Það vekur nefnilega ekki síður athygli að Metin, bróðir Enimehmedov, varð þjóðþekktur árið 2007. Þá bar hann sigur úr býtum í raunveruleikastjórnvarpsþættinum „Dance with me".


Tengdar fréttir

Ótrúlegt tilræði - byssan brást á sviðinu

Búlgarski stjórnmálamaðurinn Ahmed Dogan er líklega einn sá heppnasti þessa vikuna, en maður sem hugðist myrða hann á sviði, þar sem Dogan hélt ræðu, mistókst, eingöngu vegna þess að byssan sem hann beindi að höfði Dogan brást.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×