Erlent

Tilræðismaðurinn nafngreindur - notaði líklega gasbyssu

Búið er að nafngreina tilræðismanninn sem miðaði byssu á höfuð búlgarska stjórnmannsins Ahmed Dogan, en eins og kunnugt er hljóp ekki skot úr byssu mannsins, og því slapp Dogan með skrekkinn.

Tilræðismaðurinn er 25 ára gamall Búlgari og heitir Oktai Enimehmedov. Samkvæmt erlendum fjölmiðlum er hann á sakaskrá í landinu fyrir fíkniefnamisferli, ofbeldisbrot og rán. Greint er frá því á vef breska blaðsins The Guardian, að byssan sem maðurinn notaði, hafi líklega verið gasbyssa. Slíkar byssur eru helst hugsaðar mönnum til varnar en ekki sem árásarvopn.

Þær geta þó valdið alvarlegum áverkum sé viðkomandi skotin af stuttu færi.

Atvikið átti sér stað á ráðstefnu í Sofiu, höfuðborg landsins. Um 3000 ráðstefnugestir voru á ráðstefnunni. Það voru lífverðir Dogan sem náðu að afvopna manninn sem skyndilega birtist á sviðinu, en myndskeiðið sem náðist af tilræðinu hefur ekki síst vakið athygli þar sem ráðstefnugestir sjást ganga í skrokk á Enimehmedov.

Oktai Enimehmedov mátti þakka sínu sæla fyrir að komast í heilu lagi út úr ráðstefnuhúsinu.
Dogan, sem er tæplega sextugur, er leiðtogi MRF flokksins í Búlgaríu. Flokkurinn er málsvari tyrknesks og múslímsks minnihluta í landinu sem telur um 12 prósent af þeim 7,3 milljónum sem búa í Búlgaríu.

Flokkurinn er í stjórnarandstöðu en Dogan hefur verið leiðtogi hans í 25 ár. Dogan er einn af þekktari stjórnmálamönnum Búlgaríu en hann var meðal annars sýknaður af ákæru um spillingu fyrir tveimur árum síðan þegar hann átti að hafa tekið við greiðslum frá orkufyrirtæki í Búlgaríu.

Forseti landsins, Rosen Plevneliev, sagði í yfirlýsingu í gær að búlgarskt samfélag sé þekkt fyrir umburðarlyndi sitt og virðingu fyrir ólíkum trúarhópum og kynþáttum. Hann sagði svona lagað óásættanlegt í lýðræðisríkjum.

Tilræðið er það alvarlegasta síðan Andrei Lukanov, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, var skotin til bana fyrir framan heimili sitt í Sofiu árið 1996.


Tengdar fréttir

Ótrúlegt tilræði - byssan brást á sviðinu

Búlgarski stjórnmálamaðurinn Ahmed Dogan er líklega einn sá heppnasti þessa vikuna, en maður sem hugðist myrða hann á sviði, þar sem Dogan hélt ræðu, mistókst, eingöngu vegna þess að byssan sem hann beindi að höfði Dogan brást.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×