Erlent

Stormar trufla skipaumferð á Norður Atlantshafinu

Vetrarstormar hafa valdið miklum truflunum á ferðum flutningaskipa á Norður Atlandshafinu fyrir sunnan Ísland og Grænland undanfara daga og vikur.

Vegna þessara storma hafa myndast allt að 20 metra háar öldur á helstu leiðum flutningaskipa sem sigla milli Evrópu og Bandaríkjanna djúpt fyrir sunnan Ísland. Ekkert flutningaskip ræður við svo háar öldur.

Í frétt um málið í Politiken segir að flutningaskip á þessari leið hafi því neyðst til þess að sigla mun sunnar yfir Norður Atlandshafið sem eykur töluvert við kostnað útgerða þeirra, einkum vegna aukinnar olíunotkunar.

Í Politiken er rætt við Michael Christiansen veðurfræðing hjá dönsku veðurstofunni en hún sér m.a. um veðurfréttaþjónustu á Norður Atlantshafinu.

Christiansen segir að þeir beini flutningaskipunum á leiðir sem þeir telji öruggar. Hann segir að skip undir 100 metrum að lengd eigi ekki að sigla í gegnum öldur sem eru yfir þrír metrar á hæð. Þegar öldurnar ná 10 metra hæð eru þær orðnar hættulegar öllum skipum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×