Erlent

Beatrix drottning Hollands segir af sér, sonur hennar tekur við

Beatrix drottning Hollands hefur sagt af sér embætti. Sonur hennar, hinn 45 ára gamli Willem Alexander, tekur við sem konungur Hollands. Hann verður fyrsti konungur landsins undanfarin 122 ár.

Beatrix drottning greindi frá ákvörðun sinni að láta af embætti í sjónvarpsávarpi til þjóðar sinnar í gærkvöldi. Ákvörðunin kemur ekki mikið á óvart í Hollandi enda mun Beatrix halda upp á 75 ára afmæli sitt í þessari viku. Hún sagði enda í ávarpinu að tími væri kominn fyrir hana að láta son sinn taka við.

Það hefur myndast hefð fyrir því innan hollensku konungsfjölskyldunnar að höfuð hennar segi af sér þegar aldurinn sverfur að. Þannig sagði Júlíana Hollandsdrottning, móðir Beatrix, af sér embætti á 71 árs afmælisdegi sínum.

Beatrix var gift þýska aðalsmanninum og sendifulltrúanum Claus von Amsberg en gifting þeirra gerði Beatrix mjög óvinsæla meðal Hollendinga. Claus var fyrrum meðlimur Hitlersæskunnar og barðist sem hermaður í þýska hernum í seinni heimstyrjöldinni. Hann lést árið 2002.

Drottningin hefur þó unnið hug Hollendinga frá því hún tók við embættinu árið 1980. Nefna má að jólaávörp hennar á hverju ári voru orðin að sérstökum viðburði í lífi þjóðarinnar sem fáir vildu missa af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×