Erlent

Óvinsældir Helle Thorning Schmidt hafa aldrei verið meiri

Danir eru greinilega mjög óánægðir með störf Helle Thorning Schmidt forsætisráðherra landsins.

Ný skoðanakönnun sýnir að innan við fjórðungur þeirra er ánægður með störf Helle. Könnun þessi var unnin af ráðgjafarfyrirtækinu Green fyrir viðskiptablaðið börsen.

Niðurstöðurnar sýna að óánægja Dana í garð núverandi vinstri stjórnar í landinu hefur aldrei verið meiri frá því að stjórnin tók við völdum fyrir um tveimur árum síðan.

Nær 67% Dana eru óánægðir með störf forsætisráðherrans og hafa óvinsældir hennar mældar á þennan mælikvarða vaxið um 6 prósentustig frá því í síðasta mánuði þegar sambærileg könnun var gerð.

Áður hefur komið fram í dönskum fjölmiðlum að Danir séu einkum óánægðir með núverandi stjórn vegna þess hve henni gengur illa að fækka atvinnulausum í landinu.

Flestar tilraunir forsætisráðherrans og stjórnar hennar til að fjölga störfum í Danmörku hafa mistekist og hagvöxtur hefur ekki náð sér á strik síðustu tvö árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×