Enski boltinn

Wenger: Thierry Henry mun ekki spila aftur með Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thierry Henry.
Thierry Henry. Mynd/NordicPhotos/Getty
Arsène Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur lokað á þann möguleika á að Thierry Henry komi til liðsins á láni eins og hann gerði á sama tíma fyrir ári síðan. Wenger hafði í fyrstu tekið vel í það að fá Henry aftur en var ekki sáttur við form leikmannsins þegar hann æfði með Arsenal á dögunum.

Henry átti mjög gott tímabil með New York Red Bulls þar sem hann var með 15 mörk og 12 stoðsendingar í 25 leikjum en var ekki í leikformi þegar hann mætti til Lundúna. Henry getur ennfremur aðeins spilað með Arsenal í stuttan tíma því bandaríska deildin byrjar aftur í mars.

„Thierry Henry fer eitthvert annað. Hann er ekki tilbúinn í það að spila fyrir okkur. Hann er nýkominn til baka úr fríi og við erum ekkert að velta þessum möguleika fyrir okkur," sagði Arsène Wenger eftir 1-1 jafnteflið á móti Southampton í gær.

Thierry Henry hefur skorað 228 mörk fyrir Arsenal eða fleiri en nokkur annar leikmaður félagsins. Hann bætti met Ian Wright (185 mörk) í október 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×