Enski boltinn

Daniel Sturridge orðinn leikmaður Liverpool: Ánægður og auðmjúkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Sturridge með Liverpool-búninginn í dag.
Daniel Sturridge með Liverpool-búninginn í dag. Mynd/Nordic Photos/Getty
Liverpool gekk í dag frá kaupunum á enska landsliðsframherjanum Daniel Sturridge sem liðið fær frá Chelsea. Þessi kaup hafa legið lengi í loftinu og koma engum á óvart sem fylgst hefur með enskum fjölmiðlum upp á síðkastið.

„Ég er ánægður og um leið auðmjúkur að vera kominn hingað. Brendan Rodgers sér mig spila hér í langan tíma og ég lít eins á. Ég ætla ekki að vera hér í nokkur ár og fara síðan eitthvert annað," sagði Daniel Sturridge við BBC.

„Þetta er risafélag og að mínu mati eitt það stærsta í heimi. Það er frábært að spila hér með heimsklassa leikmönnum og fyrir þessa mögnuðu stuðningsmenn," sagði Sturridge.

Daniel Sturridge er 23 ára gamall og kom til Chelsea frá Manchester City. Hann var lánaður til Bolton 2011 og skoraði þá 8 mörk í 12 leikjum.

Sturridge skoraði 13 mörk í 63 deildarleikjum með Chelsea en var aðeins búinn að skora 1 mark í 7 leikjum á þessu tímabili þar sem hann var aðeins einu sinni í byrjunarliðinu.

Sturridge verður væntanlega á Anfield í kvöld sem áhorfandi þegar Liverpool tekur á móti Sunderland en gæti spilað sinn fyrsta leik um helgina þegar liðið spilar við Mansfield Town í enska bikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×