Enski boltinn

Wenger: Fólkið vill fá Lionel Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, viðurkennir að það sé mikil pressa á sér að kaupa þekkta leikmenn til félagsins því stuðningsmenn telja að það sé leiðin til að enda biðina eftir titli sem telur nú meira en sjö ár.

„Það verður mjög erfitt að gera stuðningsmenn okkar ánægða því væntingarnar eru mjög miklar. Fólk vill fá Lionel Messi til félagsins en vilja ekki fá ungan leikmann sem gæti orðið góður í framtíðinni," sagði Arsene Wenger á blaðamannafundi fyrir bikarleik á móti Swansea.

Adrian Lopez, framherji Atletico Madrid, Wilfried Zaha, ungstirni Crystal Palace og Lewis Holtby, miðjumaður þýska liðsins Schalke, hafa allir verið orðaðir við Arsenal að undanförnu.

„Stóru nöfnin gefa von en þegar fólk þekkir ekki nafn nýja leikmannsins þá er það alltaf efins. Þetta er því mun erfiðara fyrir okkur núna," sagði Wenger.

Wenger talaði líka um að Frakkar væru ekki lengur að framleiða leikmenn eins og fyrir 10 til 15 árum og nú horfa menn til Spánar og Þýskalands til að finna framtíðarmenn því bæði löndin hafa marga unga og góða leikmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×