Enski boltinn

Wayne Rooney missir af Liverpool-leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Mynd/Nordic Photos/Getty
Wayne Rooney, framherji Manchester United, verður frá keppni í tvær vikur til viðbótar en þetta kom fram á blaðamannafundi með knattspyrnustjóra félagsins í dag. Rooney meiddist á hné á æfingu á Jóladag og hefur misst af síðustu þremur leikjum liðsins.

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, staðfesti við blaðamenn á fundi fyrir bikarleik helgarinnar á móti West Ham að Rooney myndi missa af leiknum á móti Liverpool um næstu helgi.

„Wayne er ennþá meiddur. Þetta er ekki alvarlegt en endurhæfingin mun samt sem áður taka meiri tíma en við héldum. Hann verður ekki klár fyrir Liverpool-leikinn," sagði Sir Alex Ferguson.

Manchester United spilaði þrjá leiki án Wayne Rooney yfir Jólahátíðina og vann þá alla með markatölunni 10-3. Robin Van Persie skoraði í þeim öllum, samtals fjögur mörk og Javier Hernandez var með þrjú mörk í þessum þremur sigurleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×