Enski boltinn

Demba Ba gerði þriggja og hálfs árs samning við Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Demba Ba.
Demba Ba. Mynd/AFP
Demba Ba er orðinn leikmaður Chelsea en þessi 27 ára framherji frá Senegal hefur gert þriggja og hálfs árs samning við félagið. Chelsea kaupir hann á sjö milljónir punda frá Newcastle þar sem hann hefur raðað inn mörkum síðustu misserin.

„Það fylgir því góð tilfinning að vera kominn hingað til Chelsea. Ég er mjög ánægður og stoltur," sagði Demba Ba við BBC. Aðeins Robin Van Persie og Wayne Rooney hafa skorað fleiri mörk en hann síðan að hann mætti í ensku úrvalsdeildina 2011.

„Þetta var mikilvægt skref fyrir mig og jafnframt gott fyrir Newcastle að fá þetta á hreint. Nú er framtíð mín á hreinu og við getum haldið áfram," sagði Demba Ba en hann skorað alls 29 mörk í 54 deildarleikjum með Newcastle í ensku úrvalsdeildinni þar af 13 mörk í 20 leikjum á þessari leiktíð.

„Þegar félag sem vann Meistaradeildina vill fá þig þá er ekki erfið ákvörðun að segja já. Þetta er stór klúbbur og það hjálpaði mér að taka þetta skref. Þetta var ekki erfitt val fyrir mig," sagði Demba Ba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×