Enski boltinn

Sir Alex Ferguson reiður út í Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson.
Sir Alex Ferguson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, er allt annað en sáttur með vinnuaðferðir Tottenham eftir að Lundúnafélagið keypti varnarmanninn Zeki Fryers frá Standard Liege en strákurinn er uppalinn hjá Manchester United.

Tottenham reyndi að kaupa leikmanninn í sumar en United vildi frá sex milljónir punda fyrir hann sem forráðamenn Spurs voru ekki tilbúnir að greiða. Zeki Fryers fór því til belgíska félagsins Standard Liege fyrir lítinn pening. Standard Liege seldi hinn tvítuga Fryers síðan til Tottenham fyrir þrjár milljónir punda.

„Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með Tottenham. Ég tel að þeir séu þarna með óeðlilega og blygðunarlausa hagræðingu á aðstæðum. Það er mitt mat að ráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar eigi að skoða þetta mál betur. Þeir eiga líka að stöðva þessi félagsskipti á meðan málið er í rannsókn," sagði Sir Alex Ferguson við BBC.

Forráðamenn Tottenham segjast aðeins hafa farið aftur af stað eftir að hafa komist á snoðir með að Zeki Fryers væri með heimþrá í Belgíu. Zeki Fryers fékk einnig ekki mörg tækifæri eftir að nýr þjálfari tók við Standard Liege liðinu í nóvember. Hann spilaði alls sjö leiki með liði Standard Liege sem vinstri bakvörður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×