Enski boltinn

Robbie Keane spilar ekki á Englandi í "fríinu" sínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robbie Keane
Robbie Keane Mynd/Nordic Photos/Getty
Írski landsliðsmaðurinn Robbie Keane er ekki á leiðinni í enska boltann á ný og hefur skrifað undir nýjan samning við bandaríska félagið LA Galaxy.

Robbie Keane var í láni hjá Aston Villa fyrir ári síðan á meðan bandaríska deildin var í fríi og hafði verið orðaður við nokkur ensk félög þar á meðal QPR.

Keane hefur hinsvegar lokað á þennan möguleika því hann þarf frí eftir erfitt ár þar sem hann spilaði með Villa í vetrarfríinu og svo með írska landsliðinu á EM 2012 auk þess að gera flotta hluti með LA Galaxy í bandarísku deildinni.

„Þetta er búið að vera langt tímabil og ég þarf aðeins að hvíla skrokkinn og ná mér af smá meiðslum. Ég tel því að það sé ekki rétt fyrir mig að spila annarsstaðar í hléinu. Ég átti ár eftir af samningnum mínum en þeir hjá Galaxy buðu mér nýjan samning og ég er búinn að skrifa undir nýjan tveggja ára samning," sagði Robbie Keane.

Robbie Keane skoraði 16 mörk í 28 leikjum með Los Angeles Galaxy á síðasta tímabili og hjálpaði liðinu að verja bandaríska meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×