Enski boltinn

Pardew: Þetta lið er aðeins skugginn af liðinu í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alan Pardew, stjóri Newcastle.
Alan Pardew, stjóri Newcastle. Mynd/AFP
Alan Pardew, stjóri Newcastle, sá sitt lið, fyrst úrvalsdeildarliða, falla út úr enska bikarnum í dag þegar Newcastle tapaði 2-0 á móti b-deildarliði Brighton and Hove Albion. Pardew gerði fimm breytingar á sínu liði frá því í síðasta deildarleik en kvartaði undan skorti á gæðaleikmönnum eftir leikinn.

„Við höfðum ekki nógu marga gæðaleikmenn inn á vellinum til að klára þetta. Við söknum margra leikmanna og þrátt fyrir að okkar yngri leikmenn hafi gefið allt sitt þá var það ekki nóg. Það hjálpaði heldur ekki að verða bara tíu inn á vellinum," sagði Alan Pardew.

„Eins og tímabilið er að þróast þá verðum við að fara fá okkar menn aftur til baka úr meiðslum og það sem fyrst. Við viljum halda okkur í deildinni en við erum í hættu ef við fáum ekki okkar bestu menn aftur inn í liðið," sagði Pardew.

„Ef ég segi alveg eins og er þá þetta lið okkar í dag aðeins skugginn af liðinu okkar í fyrra. Við þurfum að fá menn til baka sem ráða við það að spila í búningi Newcastle," sagði Pardew.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×