Breska þingið hafnaði í gærkvöld tillögu David Camerons forsætisráðherra um hernaðaraðgerðir gegn Sýrlandsstjórn.
Cameron lagði mikla áherslu á það í gær að þingið samþykkti að heimila breska hernum að taka þátt í hernaðaraðgerðum og lagði fram rökstuðning fyrir því að Bretar gætu gert þetta án umboðs frá öryggisráðherra Sameinuðu þjóðanna, jafnvel þótt ekki lægi fyrir óyggjandi staðfesting þess að Sýrlandsstjórn bæri ábyrgð á efnavopnaárásinni í síðustu viku.
Þetta mættu Bretar og önnur ríki gera ef árásir eru einungis gerðar í „mannúðarskyni“, það er að segja með það eitt í huga að koma í veg fyrir að sýrlensk stjórnvöld verði fleiri almennum borgurum að bana.
Tillaga Camerons mætti hins vegar töluverðri mótstöðu í þinginu, einkum meðal stjórnarandstæðinga en einnig meðal allmargra liðsmanna Camerons úr Íhaldsflokknum. Þingmenn bentu óspart á sambærilegar aðstæður árið 2003 þegar breska stjórnin fékk þingið til að samþykkja hernað í Írak á ófullnægjandi forsendum.
Sérfræðingar frá Sameinuðu þjóðunum hafa undanfarna daga verið að rannsaka vettvang árásanna, en búist er við að rannsókn þeirra ljúki á næstu dögum. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segist reikna með að fá skýrslu með niðurstöðum rannsóknarteymisins strax á laugardaginn.
Breska þingið neitar að samþykkja hernað
Guðsteinn Bjarnason skrifar
