Erlent

Vopnahléið ekki lengur í gildi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Spenna við landamærin. Suður-kóreskir hermenn á æfingu.
Spenna við landamærin. Suður-kóreskir hermenn á æfingu. Nordicphotos/AFP
Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu fullyrtu í gær að stjórn landsins myndi ekki virða lengur vopnahlésskilmála frá 1953, en með þessu vopnahléi lauk Kóreustríðinu.

Þá hafa Norður-Kóreumenn lokað símalínu Rauða Krossins milli Norður- og Suður-Kóreu en þessa símalínu hafa stjórnvöld landanna notað til almennra samskipta og til að ráðgast um endurfundi fjölskyldna og flutning á hjálpargögnum.

Enn eru þó tvær aðrar samskiptaleiðir milli ríkjanna opnar. Önnur er samskiptaleið milli herja ríkjanna tveggja, hin er samskiptaleið milli flugumferðarstjórna þeirra.

Sama dag hófust sameiginlegar heræfingar Suður-Kóreu og Bandaríkjanna, sem haldnar eru árlega. Mikil spenna er nú á milli ríkjanna. Norður-Kórea hefur ítrekað verið með hótanir undanfarið, þar á meðal hótaði hún kjarnorkuárás á Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×