Erlent

"Ég veit ekki hvað í fjandanum ég var að gera"

Gazza og Moat
Gazza og Moat
Knattspyrnugoðsögnin Paul Gascoigne er nú kominn til Bretlands úr fimm vikna áfengismeðferð í Bandaríkjunum. Gazza hefur verið meira og minna ölvaður síðasta áratug.

Í viðtali við breska götublaðið The Sun segir hann frá afar furðulegu atviki sem átti sér stað í júlí árið 2010.

Þá hafði lögreglan umkringt morðingjann Raoul Moat eftir vikulanga leit. Moat skaut á fyrrverandi eiginkonu sína og myrti elskhuga hennar auk þess að hafa skotið lögregluþjón.

Fylgst var með gangi mála í beinni útsendingu þar sem Moat hafði verið króaður af í stóru afrennslisröri í bænum Rothbury. Eftir nokkra klukkustunda samningaviðræður við morðingjann mætti Gascoigne óvænt á svæðið.

Í samtali við útvarpsstöð sem fylgdist með sagði hann: „Ég er kominn alla leið frá Newcastle til að hitta hann og spjalla aðeins við hann."

Lögreglan trúði því ekki að Gazza myndi þekkja Moat en hann var alveg á því að hann gæti hjálpað lögreglunni til þess að fá hann til að gefa sig fram.

Nú þremur árum síðar hefur knattspyrnugoðsögnin sagt sína hlið á málinu - sem vakti gríðarlega athygli á sínum tíma.

„Ég veit ekki hvað í fjandanum ég var að gera. Veiðistöng og kjúkling? Hvað var ég að hugsa? Ég hef reyndar farið að veiða þegar mér hefur liðið illa, ætli ég hafi ekki hugsað að það gæti virkað fyrir hann," segir Gazza í samtali við The Sun.

„Ég var búinn að vera á fylliríi og sá fréttina um Moat í sjónvarpinu. Án þess að hugsa ákvað ég að ég þyrfti að fara til hans og hjálpa honum. Ég tók með mér veiðistöng, kjúkling og kippu af bjór - og settist inn í leigubíl. Ég hugsaði „Moaty mun aldrei skjóta mig, við erum góðir vinir"," segir Gazza en staðreyndin hafi hinsvegar verið sú að hann þekkti hann ekki neitt - hafði aldrei heyrt um hann né séð hann áður.

„Ég sagði leigubílstjóranum hvert hann ætti að fara og þegar hann sá bæjarskiltið í Rothbury horfði hann á mig og sagði: „Ég vona að við séum ekki að fara á þann stað sem ég held?" Þegar við komum á leiðarenda, hljóp ég út úr bílnum og sagði honum að ég myndi koma eftir eina mínútu. En um leið og ég fór út brunaði hann í burtu."

Gascoigne labbaði upp að lögreglumönnum sem voru á vettvangi og sagði: „Hann er reiðubúinn til að gefa sig fram núna. Ég vil bara ráðleggja honum og segja við hann: „Kommon Moaty, þetta er Gazza".

Þessi uppákoma knattspyrnugoðsagnarinnar vakti mikla athygli. Til dæmis sagði umboðsmaður hans í samtali við breska fjölmiðla á sínum tíma: „Er hann hvað? Ég er að snæða kvöldverð hér á Mæjorka. Ég á ekki til orð."

Gazza segist hafa snúið núna við blaðinu og vonast til að vera edrú áfram. Ef hann hefði haldið áfram að drekka væri hann ekki á lífi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×