Erlent

Bíræfins tölvuglæpamanns leitað um allan heim

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mynd/ FBI
Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur nú í þrjú ár leitað Svía sem hefur verið á flótta. Maðurinn, sem heitir Daníel Sundin, hefði átt að mæta fyrir dómara í Chicago í maí 2010 en hann er grunaður um 24 tölvubrot. Hann mætti hins vegar aldrei fyrir réttinn og þess vegna lýsti FBI eftir manninum um allan heim. Þrátt fyrir það hefur hvorki tangur né tetur fundist af honum.

Danska blaðið Expressen segir að fræðilega séð gæti maðurinn átt yfir höfði sér 480 ára fangelsi því að hámarksrefsing fyrir hvert þeirra 24 brota sem hann er grunaður um er 20 ár.

Daníel Sundin er grunaður um að hafa, ásamt bandarískum manni, tekið þátt í tölvuhakki þar sem internetnotendur í meira en 60 löndum voru narraðir til þess að kaupa gríðarlega mikinn tölvuhugbúnað sem var virði 100 milljóna dollara, eða um 12,7 milljarða króna.

FBI hefur heitið um 2,4 milljónum íslenskra króna fyrir upplýsingar sem gætu leitt til handtöku mannsins.

Meira má lesa um málið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×