Innlent

"Lögreglunni er velkomið að kanna þessa starfsemi"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Starfsemi VIP Club og Crystal hefur verið til umfjöllunar undanfarna daga en þar geta viðskiptavinir keypt kampavín og spjallað við stúlkur sem þar starfa.

Eigendur staðanna hafa nú stefnt borgarfulltrúanum Björk Vilhelmsdóttur og Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur, forstöðukonu vændisathvarfsins, vegna ærumeiðandi ummæla en þær sögðu í viðtölum í fjölmiðlum að svo virtist sem vændi og mansal færi fram í tengslum við staðina. Farið er fram á opinberar afsökunarbeiðnir og greiðslu miskabóta upp á eina milljón króna frá hvorri þeirra til hvors stefnanda. Þær hafa frest fram á mánudaginn, ella verður höfðað mál.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lögmaður eigenda staðanna. „Því er alfarið hafnað að þarna fari eitthvað fram sem er í andstöðu við lög og rétt. Það er öllum velkomið að mæta á þessa staði og kanna það af eigin raun. Menn vita hvar staðirnir eru, það hefur verið ítarlega auglýst núna og það er ekki vændisstarfsemi sem þarna fer fram og þaðan af síður á það við nokkur rök að styðjast að þær stúlkur sem þarna starfa séu ekki þarna af fúsum og frjálsum vilja,“ segir Vilhjálmur.

Hann bendir á að ásakanir um vændi og mansal hafi verið hafðar uppi áður í fjölmiðlum og Hæstiréttur hafi dæmt þau ummæli dauð og ómerk. "Enda voru þetta hreinar og klárar ærumeiðingar eins og ummælin eru í þesu tilviki,“ segir hann.

Björk vill að lögreglan rannsaki starfsemi umræddra staða og Vilhjálmur segir eigendur staðanna ekki hafa neitt að fela. „Þeir hafa einfaldlega ekkert að óttast. Lögreglunni er velkomið að kanna þessa starfsemi eins og lögreglunni sýnist,“ segir Vilhjálmur.

Björk kveðst hissa vegna stefnunnar. „Ég sagði að allt benti til þess að verið væri að selja aðgang að konum; 20 þúsund fyrir hverjar tíu mínútur og það er ekkert annað en vændi. Þessar konur eru ekki að spjalla við mennina því þær tala hvorki íslensku né ensku. Þetta er bara kynlífsþjónusta og það er vændi. Þannig að ég held ég standi bara við þau orð,“ segir Björk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×