Erlent

Uppreisnarmenn minna á sig

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Þarna sprakk ein af bílsprengjunum á þriðjudagskvöld, skammt frá Græna svæðinu í Bagdad. fréttablaðið/AP
Þarna sprakk ein af bílsprengjunum á þriðjudagskvöld, skammt frá Græna svæðinu í Bagdad. fréttablaðið/AP
Að minnsta kosti 65 manns létu lífið á þriðjudagskvöld af völdum sprengjuárása í Írak, daginn áður en rétt tíu ár voru liðin frá því að innrás Bandaríkjamanna og fylgismanna þeirra hófst.

Þetta urðu þar með mannskæðustu árásirnar í landinu frá því í september, þegar árásir uppreisnarmanna kostuðu 92 lífið.

Töluvert hefur dregið úr ofbeldi í Írak frá því það náði hámarki með innbyrðisátökum sjía og súnnía árin 2006 til 2007. Engu að síður er ástandið enn viðkvæmt og mannskæðar árásir nokkuð algengar.

Loftárásirnar á Írak, undir forystu Bandaríkjamanna, hófust 20. mars árið 2003. Innrásarliðinu tókst fljótlega að steypa stjórn Saddams Hussein af stóli, en harðvítug átök árum saman hafa kostað hátt á annað hundrað þúsund manns lífið.

Nú, áratug síðar, er enn ekki útséð um hvort stöðugt stjórnarfar mun festast í sessi.

Bandaríski herinn fór frá Írak í desember árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×