Erlent

Eiturlyfið krókódíll orðið vandamál í Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Amber Neitzel sýnir hér sár sem hún er með á fætinum. Systir hennar Angie situr við hliðina á henni.
Amber Neitzel sýnir hér sár sem hún er með á fætinum. Systir hennar Angie situr við hliðina á henni. Mynd/Mailonline
Systurnar Amber og Angie Neitzel, frá Joilet í Illinois ríki í Bandaríkjunum hafa neytt eiturlyfsins Krókódíll  í um það bil eitt og hálft ár. Eftir þessa neyslu er mikinn mun að sjá á þeim og þær eru með ljót sár á líkamanum. Þær systur leyfðu ljósmyndurum frá Dailymail að taka myndir af sárunum.

Amber og Angie segjast ekki hafa vitað að þær væru að neyta krókódíls í fyrstu og héldu að þær væru að neyta venjulegs heróíns. Þær sögðu blaðamanni að á þeim tíma vildu þærfrekar krókódíl því það kostaði einungis tíunda af venjulegu heróíni og víman var meiri. Eftir nokkrar vikur fóru  að myndast sár á fótum og höndum þeirra en eiturlyfinu var gefið nafnið vegna þess að hrúður myndast á neytendum þess sem minnir á krókódílahúð.

Læknirinn Abhin Singla segir sárin vera ólík einhverju sem hann hafi áður séð. „Sárin fara alveg inn að beini. Þau líta illa út og verra en nokkuð sem ég hef séð áður.“ Hann bætir við að fólki sem komi á spítalann til hans vegna þess að það er hrætt um að hafa tekið Krókódíl hafi fjölgað og þakkar hann umfjölluninni sem eiturlyfið hefur fengið fyrir það.

„Ég reikna þó með að ég muni sjá mun fleiri tilvik á næstu mánuðum vegna þess að ég held að eiturlyfið hafi dreifst. Ég veit ekki hvernig hægt er að stöðva þetta, en það verður að byrja hjá lögregluyfirvöldum. Mörg tilvik hafa komið upp víðsvegar um Bandaríkin og eitthvað þarf að gera.“

Amber segist hafa verið að neyta eiturlyfja í um tíu ár en hún hafi aldrei upplifað annað eins. „Á tímabilum var ég svo veikburða og það blæddi svo mikið úr sárunum að ég hélt ég væri að deyja.“

Þær ákváðu að hætta neyslu eftir að vinur þeirra rétti þeim blað með nafninu Krókódíll og sagði þeim að rannsaka það. Þær eru báðar hættar neyslu en hver dagur er þeim erfiður. Amber og Angie búa við mikinn sársauka og geta vart gengið. Þær þurfa að skipta um umbúðir á átta klukkutíma fresti svo þær fái ekki sýkingu í sárin.

„Þeir þurfa að finna hvaðan þetta efni kemur og stöðva það. Ef mín saga hjálpar fólki að hugsa sig tvisvar um þá hefur kannski eitthvað gott komið út úr þessu,“ segir Amber.

Á vef Dailymail er sagt að Fíkniefnalögregla Bandaríkjanna hafi fyrst gert lítið úr áhyggjum vegna Krókódíls en það hafi breyst og nú sé unnið hörðum höndum að því að finna uppruna eiturlyfsins.

Þetta sár á læri Amber sýnir þau miklu áhrif sem eiturlyfið getur haft.Mynd/Dailymail

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×