Enski boltinn

Samkeppni Gylfa minnkar | Dempsey vestur um haf

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gylfi Þór hefur verið í aðalhlutverki með Spurs á undirbúningstímablinu.
Gylfi Þór hefur verið í aðalhlutverki með Spurs á undirbúningstímablinu. Nordicphotos/Getty
Á vefsíðu ESPN er greint frá því að bandaríski landsliðsmaðurinn Clint Dempsey sé á leið í raðir Seattle Sounders frá Tottenham Hotspur.

Samkvæmt heimildum vefsíðunnar, sem sagðar eru úr mörgum áttum, gæti jafnvel verið gengið frá félagaskiptunum strax í dag. Forsvarsmenn Sounders, sem spila í atvinnumannadeildinni vestanhafs, neituðu að tjá sig um málið í samtali við ESPN.

„Við getum orðað það svona. Það kemur mér ekki á óvart að þú sért að hringja í mig,“ sagði ónafngreindur heimildarmaður innanhúss hjá Seattle-liðinu.

Tíðindin eru nokkuð óvænt enda er aðeins ár í að heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu fer fram í Brasilíu. Dempsey hefur ítrekað lýst því yfir að hann vilji spili á meðal þeirra bestu. Þá er hann uppalinn í Texas og áður sagst vilja ljúka ferlinum á heimaslóðum.

Gylfi Þór Sigurðsson og Dempsey hafa átt í samkeppni um sæti í byrjunarliði Tottenham. Ljóst er að brottför Dempsey myndi ekki minnka líkur Gylfa á sæti í byrjunarliðinu. Dempsey hefur spilað 99 landsleiki fyrir Bandaríkin og skorað í þeim 35 mörk.

Uppfært klukkan 15:00

Tottenham Hotspur staðfestir að Dempsey sé genginn í raðir Seattle Sounders. Kaupverðið er sagt vera um sex milljónir punda eða rúmur milljarður íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×