Fótbolti

Eiður skoraði í fjórða leiknum í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Eiður Smári Guðjohnsen heldur áfram að gera það gott í belgíska boltanum en hann hefur nú skorað í sínum fyrstu fjórum leikjum með Cercle Brugge.

Cercle Brugge vann í kvöld langþráðan sigur í deildinni en liðið vann síðast leik í deildinni í lok september. Cercle Brugge vann 3-1 sigur á Beerschot og skoraði Eiður Smári annað mark sinna manna úr vítaspyrnu á 32. mínútu.

Eiður gekk í raðir félagsins í upphafi mánaðarins og var aðeins nokkrar mínútur að stimpla sig inn með marki í fyrsta leiknum. Hann hefur fylgt því eftir með því að skora í hverjum einasta leik eftir það.

Með sigrinum komst Cercle Brugge úr neðsta sæti en liðið er nú með sjö stig, rétt eins og Waasland-Beveren sem er nú í neðsta sæti. Arnar Þór Viðarsson lék allan leikinn með Cercle Brugge en Eiður var tekinn af velli á 83. mínútu.

Stefán Gíslason var í liði Leuven sem vann 3-1 sigur á Mechelen. Hann spilaði allan leikinn.

Ólafur Ingi Skúlason kom inn á sem varamaður í upphafi síðari hálfleiks þegar að lið hans, Zulte-Waregem, vann 4-1 sigur á Charleroi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×