Fótbolti

Margrét Lára: Það væri stórkostlegt að vinna riðilinn og komast beint á EM

Óskar Ófeigur Jónsson í Osló skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir og félagar hennar í íslenska kvennalandsliðinu eiga góðar minningar frá fyrri leiknum á móti Noregi sem vannst 3-1 á Laugardalsvellinum fyrir ári síðan. Í dag mætast liðin aftur og nú á Ullevaal-leikvanginum í Osló. Þetta er lokaleikur liðanna í undankeppni EM og hreinn úrslitaleikur um sæti í úrslitakeppninni sem fer fram í Svíþjóð næsta sumar en íslenska liðinu nægir jafntefli til að koma á annað Evrópumótið í röð.

„Við náðum að sprengja fyrri hálfleikinn upp á móti þeim í fyrri leiknum og komum þeim svoílítið í opna skjöldu. Þær unnu seinni hálfleikinn 1-0 á Laugardalsvelli og við þurfum að gera betur en það. Ef við vinnum báða hálfleikina þá vitum við hvað það gefur okkur. Við erum með sjálfstraust en það gefur okkur ekkert á morgun (í dag) því við verðum að vera klárar í leikinn," segir Margrét Lára.

„Ég veit ekki hvort að það hafi verið tilviljun en Noregur-Ísland er síðasti leikurinn í riðlinum. Maður gat gefið sér það fyrir keppnina að norsku stelpurnar yrðu okkar helsti keppinautar en svo hafa Belgar komið gríðarlega sterkir inn og komið mikið á óvart. Við getum nagað okkur í handarbökin með leikina við Belga því við værum ekki í þessari stöðu í dag ef við hefðum klárað báða þá leiki," segir Margrét Lára en íslenska liðið tapaði fimm stigum í leikjunum tveimur á móti Belgíu.

Margrét Lára segir norska liðið skipað reynslumiklum og sigursælum leikmönnum og að öll pressan sé á þeim norsku í leiknum í dag.

„Þær eru með leikmenn sem hafa unnið allt á sínum ferli, hafa náð flottum úrslitum allstaðar og hafa unnið stórmót. Við eigum ekki enn leikmenn sem hafa unnið stórmót en kannski gerist það í framtíðinni. Þær hafa kannski reynsluna en pressan er líka á þeim. Þær eru á heimavelli, þær eru ofar á styrkleikalistanum og við eigum að vera minna liðið á morgun (í dag). Pressan er á þeim og ekki minnkaði hún þegar þeir færðu leikinn hingað," segir Margrét Lára en norsku stelpurnar eru ekki vanar því að spila heimaleikina á Þjóðarleikvanginum á Ullevaal.

„Það er mikið undir hjá báðum liðum og þetta er bara úrslitaleikur. Ef þjóðin getur ekki stillt á RÚV í dag þá veit ég ekki hvenær hún getur gert það. Við lofum skemmtilegum leik og við ætlum okkur áfram og beint á EM. Ég sagði það fyrir fjórum árum að það væri frábært að komast á EM en það væri stórkostlegt að vinna riðilinn og komast beint á EM. Ég stenf fast við þau orð því það er stórtkostlegt. Ég vona það innilega að fólk geri sér grein fyrir því hvað við erum að fara út í mikilvægan leik í dag," sagði Margrét Lára en leikurinn hefst klukkan 17.30 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×