Fótbolti

Fyrstu leikir norsku stelpnanna á Ullevaal í tólf ár

Óskar Ófeigur Jónsson í Osló skrifar
Úr leik Íslands og Noregs í fyrra.
Úr leik Íslands og Noregs í fyrra.
Norska kvennalandsliðið í fótbolta bjó að því að eiga tvo síðustu leiki sína í undankeppninni á heimavelli á móti tveimur aðalkeppinautum sínum. Norðmenn ákváðu að færa til báða leikina og spila þá á Ullevaal-leikvanginum í Osló. Íslensku stelpurnar ætla að reyna að taka með sér EM-sæti frá Ullevaal í dag en jafntefli nægir íslenska liðinu til að komast beint inn á EM í Svíþjóð 2013.

Norsku stelpurnar höfðu ekki spilað á þjóðarleikvanginum í meira en tólf ár þegar koma að 3-2 sigurleiknum á móti Belgíu á laugardaginn var eða síðan að norska liðið vann 2-1 sigur á þá Heimsmeisturum Bandaríkjanna 30. júlí 2000. Norsku stelpurnar hafa alls leikið fjóra leiki á Ullevaal-leikvanginum og unnið þá alla með markatölunni 11-3.

Íslenska kvennalandsliðið var með á EM í fyrsta sinn í Finnlandi sumarið 2009 en norska kvennalandsliðið hefur verið með á síðustu níu Evrópumótum eða öllum nema því fyrsta árið 1984. Þær norsku hafa ennfremur unnið EM tvisvar (1987 og 1993) og komist í undanúrslit í átta af níu keppnum. Noregur endaði í 3. sæti í síðustu keppni eftir að hafa skilið íslenska liðið eftir í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×