Enski boltinn

Benitez byrjar á meistaraslag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Benitez er tekinn við stjórn Evrópumeistara Chelsea.
Rafael Benitez er tekinn við stjórn Evrópumeistara Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Rafael Benitez, fyrrum stjóri Liverpool, er kominn aftur í enska boltann en hann var á fimmtudagskvöldið ráðinn knattspyrnustjóri Chelsea. Hans hlutverk verður að rétta af bláu skútuna hans Roman Abramovich en Chelsea hefur ekki unnið leik í ensku úrvalsdeildinni síðan 20. október og er við það að falla úr leik í Meistaradeild Evrópu.

Hinn moldríki Abramovich er ekki þekktur fyrir að sýna knattspyrnustjórum sínum þolinmæði en Benitez mun þó starfa undir þeim formerkjum að ráðningin sé aðeins tímabundin. Samningurinn sem hann undirritaði gildir aðeins til loka tímabilsins.

Benitez var staddur á ráðstefnu í Abu Dhabi þegar að Roberto Di Matteo var rekinn að næturlagi – nokkrum klukkutímum eftir að Chelsea tapaði fyrir Juventus á þriðjudagskvöldið. Næstu nótt flaug Benitez til Englands og sat strax á fimmtudagskvöldið fyrir svörum blaðamanna sem nýr stjóri Chelsea.

Verkefni hans verður ærið. Fregnir hafa borist af því að stuðningsmenn Chelsea séu allt annað en sáttir við þennan ráðahag og því þarf Benitez að byrja vel. Fyrsti leikurinn er ekki af auðveldara taginu en hann fær á morgun Englandsmeistara Manchester City í heimsókn. City er þar að auki á toppi deildarinnar og eina taplausa liðið í öllum fjórum atvinnumannadeildum Englands.

„Stuðningsmennirnir vilja stjóra sem getur unnið titla. Og við eigum það sameiginlegt að öll viljum við vinna hvern einasta leik," sagði hinn 52 ára gamli Benitez, óhræddur við verkefnin sem er fram undan. Nú þegar er Chelsea fjórum stigum á eftir City og má liðið helst ekki við því að bilið aukist enn frekar.

Því er ekki að neita að Benitez hefur náð árangri. Hann varð spænskur meistari tvisvar, enskur bikarmeistari og vann þar að auki bæði Meistaradeild Evrópu og UEFA-bikarinn sáluga. Flestir komu á árunum 2000 til 2005 og því kannski margir sem spyrja hvort hann hafi enn það sem til þurfi. Hann fær tækifæri nú til að sýna það og sanna.

Áhrif breytinga á lið Chelsea

Fjórir þjálfarar hafa tekið við Chelsea á miðju tímabili. Þar af var einn þeirra við völd í aðeins einn leik. Chelsea hefur unnið sinn fyrsta leik í síðustu þrjú skipti sem nýr maður hefur tekið við á miðju tímabili.

Fyrsti leikur Roberto Di Matteo

1-0 sigur á Stoke City (10. mars 2012)

Stig í fyrstu 5 deildarleikjum: 10 stig

Fyrsti leikur Guus Hiddink

1-0 sigur á Aston Villa (21. febrúar 2009)

Stig í fyrstu 5 deildarleikjum: 12 stig

Eini leikur Ray Wilkins

3-1 sigur á Watford í enska bikarnum (14. febrúar 2009)

Guus Hiddink tók síðan við liðinu.

Fyrsti leikur Avram Grant

0-2 tap fyrir Manchester United (23. september 2007)

Stig í fyrstu 5 deildarleikjum: 10 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×