Íslenski boltinn

Tek tvö ár með trompi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ólafur Örn Bjarnason reynir hér að stöðva Steven Lennon í sumar. Þeir spila saman næsta sumar.
Ólafur Örn Bjarnason reynir hér að stöðva Steven Lennon í sumar. Þeir spila saman næsta sumar. Mynd/Valli
Framarar fengu flottan liðsstyrk í gær þegar hinn 37 ára gamli varnarmaður, Ólafur Örn Bjarnason, skrifaði undir samning við félagið. Hann kemur til liðsins frá Grindavík.

„Ég vildi gera þetta á fullu í tvö ár eða sleppa þessu. Þegar maður á eitt ár eftir af samningi og veit ekki hvað tekur við þá verða síðustu mánuðir í lausu lofti. Ég er alls ekki búinn að fá leið á fótbolta og geri seint. Ég var því klár í að taka tvö ár með trompi," sagði varnarmaðurinn síungi.

„Þetta gerðist hratt. Ég hitti Þorvald þjálfara á föstudagskvöldið og eftir það yngdist ég um fimm ár og var klár í allt. Hann var ekkert að velta fyrir sér hvað ég væri gamall heldur vildi hann semja við mig."

Ólafur segir að sér lítist afar vel á Fram-liðið sem hefur ekki staðið undir væntingum síðustu ár.

„Það hefur vantað einhvern herslumun hjá þeim. Það býr mikið í þessu liði og fullt af flottum fótboltamönnum þarna. Það þarf ekki mikið til að liðið fari að ógna þeim bestu tel ég."

Ólafur er þriðji leikmaðurinn sem Fram fær til sín. Viktor Bjarki Arnarsson og Haukur Baldvinsson voru áður búnir að semja við Safamýrarliðið.

„Ég var ekki í alvöru viðræðum við nein önnur félög. Bara smá spjall. Um leið og ég var búinn að tala við Þorvald var öllu öðru ýtt til hliðar. Ég tel okkur eiga að geta teflt fram flottu liði næsta sumar. Það er flott að fá Viktor inn sem kann þetta allt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×