Íslenski boltinn

Ætla að hafa liðið mitt klárt fyrir áramót

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Páll Viðar er farinn að safna liði og er engan veginn hættur.
Páll Viðar er farinn að safna liði og er engan veginn hættur. Mynd/Pjetur
Pepsi-deildarlið Þórs frá Akureyri fékk fínan liðsstyrk í gær er tveir af betri leikmönnum 1. deildarinnar síðasta sumar sömdu við félagið.

Athygli vekur að Bosníumaðurinn Edin Beslija sé farinn norður, en hann kemur frá Víkingi Ólafsvík sem einnig tryggði sér þáttökurétt í Pepsi-deildinni næsta sumar. Þar hefur þessi 25 ára leikmaður verið í algjöru lykilhlutverki síðustu ár.

Það er langt síðan Þór hafði samband við hinn 24 ára gamla Dana Mark Tubæk, en hann lék með BÍ/Bolungarvík. Svo langt að Þór var sektað af KSÍ fyrir að hafa samband við leikmanninn meðan hann var enn samningsbundinn BÍ.

„Við erum brenndir frá því við vorum síðast í efstu deild og reynum að læra af því. Ég ætla því að hafa liðið mitt klárt fyrir áramót," sagði Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, en hann er mjög ánægður með liðsstyrkinn.

„Þeir voru tveir af öflugustu mönnum 1. deildarinnar síðasta sumar að mínu mati. Þeir styrkja okkur því klárlega. Þeir eru ekkert dýrari en íslenskir leikmenn og við teljum okkur vera að fá mikið fyrir peninginn. Það kostar samt að vera með alvöru lið."

Þór er enn að reyna að semja við Chukwudi Chijindu en óljóst er hvað verður um það. Sá skoraði fimm mörk í níu leikjum í fyrra. Náist ekki samningar við hann verður reynt við annan framherja. Páll segir að Þór sé í viðræðum við tvo íslenska leikmenn þess utan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×